Erlent

Lundúnasprengjumenn handteknir

Allir mennirnir fjórir, sem voru eftirlýstir fyrir að hafa reynt að sprengja sprengjur í jarðlestum og strætisvagni í Lundúnum þann 21. júlí, eru nú í haldi lögreglu, að því er breskir fjölmiðlar fullyrtu í gær. Sérsveitarmenn bresku lögreglunnar, vopnaðir hríðskotabyssum og táragasi, gerðu áhlaup á tvær íbúðarblokkir í vesturhluta Lundúna í gær og handtóku þar tvo sprengjumannanna fjögurra. Einn fjórmenninganna var handtekinn í Birmingham á miðvikudag. Síðdegis í gær fréttist svo að fjórði meinti sprengjumaðurinn hefði verið handtekinn í Róm. Hann kvað vera Osman Hussain, breskur ríkisborgari upprunninn í Sómalíu. Hann er grunaður um misheppnuðu sprengjuárásina í jarðlest við Shepherd's Bush-stöðina á fimmtudeginum fyrir rúmri viku. Nöfn hinna tveggja voru ekki gefin upp að svo stöddu, en samkvæmt heimildum fréttavefs BBC eru þessir menn þeir sem eftirlýstir voru fyrir að hafa reynt að sprengja heimatilbúnar sprengjur í strætisvagni á Hackney Road og í jarðlest við Oval-stöðina. Þá handtók lögregla einnig tvær konur á Liverpool Street-lestarstöðinni í miðborg Lundúna í gær. Stöðin var rýmd er handtökurnar fóru fram. Að sögn vitna stóð önnur konan í biðröð í lestina til Stansted-flugvallar er lögreglumenn skelltu henni í gólfið. Ekki lá fyrir hvort talið væri að hinar handteknu tengdust sprengjutilræðunum. Íbúðarblokkirnar þar sem hinir grunuðu voru handteknir eru í Notting Hill-hverfinu. Í grennd við aðra þeirra er garður þar sem sprengja fannst í bakpoka um síðustu helgi. Sá fundur vakti grun um að sprengjumennirnir hefðu verið fimm en ekki fjórir. Sky News-stöðin greindi einnig frá því að einn maður enn hefði verið handtekinn í Hackney í Austur-Lundúnum. Á fimmtudag handtók lögregla níu menn í áhlaupi á hús í Tooting-hverfi í suðurhluta borgarinnar. Alls eru nú yfir 20 manns í haldi í tengslum við rannsókn sprengjuárásanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×