Erlent

Fuglaflensa greind í Rússlandi

Rússnesk yfirvöld greindu frá því í gær að fuglaflensuveira, sem fannst nýlega í fuglum í Síberíu, væri af þeirri skæðu gerð sem getur borist í menn. Veirusýkingin drap hundruð far- og alifugla í Síberíu fyrr í þessum mánuði, en engar fréttir hafa borist af því að hún hafi borist í menn. Í fréttatilkynningu frá rússneska landbúnaðarráðuneytinu segir að rannsókn hafi leitt í ljós að veiran sem fannst í fuglunum í Novosibirsk-héraði væri af skæða afbrigðinu A H5N1. Fuglaflensa hefur greinst í farfuglum víða um Asíu á síðustu mánuðum og vitað er um nokkur tilvik þar sem sem sýkingin hefur dregið menn til dauða. Frá því á árinu 2003 hafa að minnsta kosti 57 manns orðið veikinni að bráð í Víetnam, Taílandi, Kambódíu og Indónesíu, en tilkynnt var nú í júlí um fyrstu dauðsföllin þar í landi. Hundruðum milljóna alifugla hefur verið slátrað og eytt í sýkingavarnaskyni í þessum löndum á síðustu tveimur árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×