Innlent

Mótmæla lokun Íslandsbankaútibús

Fyrir undirskriftasöfnuninni stóðu þeir Jón R. Sveinsson og Kristinn Breiðfjörð, íbúar í nágrenni við útibúið og viðskiptavinir bankans. "Bankinn á á hættu að missa fjölda viðskiptavina ef af lokuninni verður," segir Jón. "Áður var stefna bankans að koma til fólksins en nú virðist sem stefnan sé að fjarlægjast það," segir hann. Kristinn bendir á ummæli kynningarfulltrúa Íslandsbanka sem birtust í fjölmiðlum af öðru tilefni. "Þar kom fram að forsvarsmönnum Íslandsbanka væri umhugað um að þarfir viðskiptavina bankans væru settar í forgang. Lokun útibúa er ekki í beinu samræmi við þá stefnu," segir Kristinn. Undirskriftarlistarnir voru afhentir fulltrúa Íslandsbanka á miðvikudaginn. "Við munum taka athugasemdir viðskiptavina okkar til athugunar og verður það gert á næstunni," segir Haukur Oddsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×