Innlent

Ódrekkandi vatn í Höfnum

Ferskvatnið í Höfnum á Reykjanesi er svo vont að íbúarnir fara langar leiðir til þess að sækja sér neysluvatn á brúsa. Ekki er útlit fyrir að ástandið batni næstu tvö til þrjú árin. Vatnið í Höfnum er svo brimsalt að það er nánast óhæft til drykkjar og hefur svo verið um langt skeið. Árið 2002 var klóríðmagn í vatninu 370 millígrömm en má mest vera 250. Klóríðmagnið hefur lækkað síðan og er nú komið niður undir leyfileg mörk en vatnið er engu að síður ódrekkandi. Magnús Bjarni Guðmundsson sem býr í Höfnum segir að íbúarnir neyðist til að nota heita vatnið frá Hitaveitu Suðurnesja til eldamennsku, tannburstunar og, eftir að hafa kælt það, til að fá sér vatnssopa. Og hann segist fá „skán í hausinn“ ef hann reyni að þvo hausinn á sér með ferskvatninu. Hitaveita Suðurnesja tók við neysluvatninu í febrúar á þessu ári. Hún hefur lagt fram aðgerðaáætlun um að rannsóknir verði gerðar árið 2006 og fé veitt til aðgerða árið 2007. Íbúar í Höfnum munu því enn um sinn búa við ódrekkandi vatn.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×