Innlent

Skuldir heimilanna aukast

Skuldir heimilanna námu í árslok 2004 um 760 milljörðum og hafa vaxið um 15,2 prósent frá árinu á undan. Þetta kemur fram í yfirliti fjármálaráðuneytisins um helstu niðurstöður álagningar opinberra gjalda. Skuldir vegna íbúðakaupa jukust heldur minna eða um 12,6 prósent. Fjármálaráðuneytið birti í gær helstu niðurstöður álagningar einstaklinga og þeirra sem reka fyrirtæki í eigin nafni. Eignarskattur var lagður á í síðasta sinn í ár og nemur alls 2,8 milljörðum króna og hækkar um 30 prósent á milli ára sem fjármálaráðuneytið segir einkum skýrast af hækkun á fasteignamati milli ára. Þá hefur gjaldendum eignarskatts fjölgað um 8,8 prósent og greiða alls 75.600 eignarskatt í ár. Allar tölur um álagningu opinberra gjalda framteljenda að fyrirtækjum undansdkilum liggja nú fyrir en álagning opinberra gjalda á fyrirtæki liggja fyrir í lok október. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær nemur samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars um 145 milljörðum króna í ár. Framteljendum fjölgar á landinu öllu uj 2,1 prósent en 4.772 fleiri einstaklingar telja nú fram en á síðasta ári. Hátekjuskatt greiða 17.456 framteljendur og greiða þeir um 1,4 milljarða króna en enda þótt að skatthlutfall hátekjuskattsins hafi verið lækkað frá fyrra álagningarári um eitt prósentustig, niður í 4 prósent, hækkar álagning á þessa gjaldendur um 3,9 prósent. Þá eru greiðendur fjármagnstekjuskatts tæplega 77 þúsund og fjölgar aðeins á milli ára. Fjármagnstekjur ríkisins eru að helmingi arðgreiðslur, vextir og leigutekjur en einnig söluhagnaður hlutabréfa en alls telja 11.400 fram slíkar tekjur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×