Innlent

Ætla enn að trufla umferð

Yfir fimmtíu atvinnubílstjórar munu taka þátt í mótmælum vegna olíugjalds á morgun. Fjármálaráðherra óskaði eftir fundi með forsvarsmanni mótmælanna í dag sem ekki vildi hitta ráðherrann. Fulltrúar Landsbjargar segja mótmælin geta kostað mannslíf. Atvinnubílstjórar halda því til streitu að stöðva eða hægja verulega á umferð út úr borginni á morgun. Að sögn forsvarsmanns bílstjóranna óskaði fjármálaráðherra eftir fundi í dag, en ekkert varð úr þeim fundi. Hann skorar hinsvegar á fjármálaráðherra að hringja og biðja um fund með bílstjórunum. Sturla Jónsson forsvarsmaður bílstjóranna, sagði að fundurinn hefði líklega orðið einhliða og gagnslaus því tveggja manna tal í lokuðu herbergi er einskis manns tal. Það mátti enginn koma á fundinn og engar myndavélar leyfðar og Sturla fannst að fjármálaráðherra hefði frekar átt að koma á fund með bílstjórum. Og það virðast vera margir sem ætla að taka þátt í mótmælunum. Sturla heldur að þetta verði jafnvel fimmtíu bílar og jafnvel að bætast í. Forsvarsmenn mótmælanna funduðu með lögreglu og slökkviliði í gærkvöldi þar sem bílstjórunum var kynnt hættan af slíkum aðgerðum. Fulltrúar Landsbjargar sendu einnig frá sér tilkynningu í dag þar sem þeir segja mótmælin geta kostað mannslíf. Fjölmargir hafa mótmælt aðgerðum atvinnubílstjóranna. Jóhann K. Jóhannsson frá Landsbjörgu sagði þá vilja benda atvinnubílstjórum á að sýna skynsemi og leyfi umferðinni að ganga sinn vanagang. Og ef þolinmæði ökumanna brestur þá geta þeir tekið óþarfa áhættu í umferðinni, framúrakstur eða þess háttar og það skapar óþarfa hættu. Sturla sagði að hann gæti ekki séð neina hættu í umferðinni og benti á að það yrðu slys í umferðinni og ef menn ætla að forðast öll slys þá ættu þeir bara að halda sig upp í rúmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×