Erlent

NASA slær geimferðum á frest

Bandaríska geimferðastofnunin NASA ætlar að slá frekari geimferðum á frest á meðan sérfræðingar rannsaka stykki sem duttu af eldsneytistanki geimferjunnar Discovery við flugtak á þriðjudaginn. Stykkin tvö sem féllu af tanknum þegar Discovery var skotið á loft voru einangrunarfroðuklumpar. Fyrir tveimur og hálfu ári duttu einmitt svipuð stykki af geimferjunni Kólumbíu, sem síðar leiddi til þess að hún fórst á leiðinni inn í lofthjúp jarðar. Eftir ýtarlega skoðun á geimferjunni Discovery í gær og í morgun, með fjarstýrðum myndavélum sem tengdar eru við vélina, hefur þó ekkert komið í ljós sem gefur tilefni til þess að ætla að afleiðingarnar nú verði jafnhörmulegar og fyrir tveimur og hálfu ári. Froðuklumparnir lentu ekki á ferjunni þegar þeir duttu af og ollu því ekki frekari skemmdum. Discovery lendir í alþjóðlegu geimstöðinni nú um hádegið og þar verða hugsanlegar skemmdir á vélinni metnar enn frekar. Til að ná myndum af maga ferjunnar, fer hún í heilan hring aftur fyrir sig rétt áður en hún lendir, en slíkt hefur aldrei verið gert áður. Ef skemmdirnar eru alvarlegar og ekki þykir rétt að fara á loft á nýjan leik, geta geimfaranir dvalið í geimstöðinni uns aðstoð berst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×