Innlent

15 milljarða aukning tekjuskatts

Álagning tekjuskatta í ár er um 145 milljarðar króna að útsvarinu meðtöldu. Barnabætur og vaxtabætur eru samtals um tíu milljarðar," segir Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri. Hann segir að sömu skattar hafi verið um 130 milljarðar á síðasta ári. Skatttekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga hafa því aukist um fimmtán milljarða króna, eða 11,5 prósent, milli áranna 2003 og 2004. Aðspurður um ástæður þessarar aukningar segir Indriði: "Þetta er hærra en í fyrra sem eðlilegt er því það hefur náttúrlega verið mikil gróska í þjóðlífinu. Laun hafa hækkað og þá hækka skattarnir af sjálfu sér. Þetta fylgist að." Indriði segir að stór hluti skattanna, aðallega skattar í staðgreiðslu og barnabætur, hafi verið greiddir fyrir fram þannig að lítill hluti þessara fjárhæðar komi til uppgjörs nú. Hann segir að nokkuð jöfn skipting sé á milli framteljenda sem ættu endurkröfu og útborganir til framteljenda. "Hins vegar eru endurkröfur eða viðbótarálagning ekki mjög miklar þar sem staðgreiðslukerfið virkar mjög vel og tekur þetta samtímis," segir Indriði. Skattstjórar leggja á morgun fram skrár með álagningu opinberra gjalda árið 2005.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×