Innlent

Þúsund manns komin til Eyja

"Hér gengur allt saman eins og best verður á kosið," segir Páll Scheving, framkvæmdastjóri ÍBV, en félagið hefur umsjón með framkvæmd Þjóðhátíðarinnar í Vestmanneyjum. Í dag verður lögð lokahönd á undirbúninginn enda verður húkkaraballið svokallaða í kvöld. Veðurblíðan undanfarna daga hefur auðveldað allan undirbúning hjá mótshöldurum víða um land. "Það er miklu auðveldara að fá fólk til að aðstoða og vinna sjálfboðaliðavinnu þegar svona viðrar. Þetta gengur eins og í sögu. Hér voru um sjö til átta þúsund manns í fyrra og við búumst við fleirum í ár enda er þegar orðið uppselt í Herjólf nema í næturferðina," segir Páll. Á Akureyri er fjölskylduhátíðin Ein með öllu haldin í fimmta skiptið í ár. "Við erum búnir að gera góðan samning við veðurguðina og það er stærsti samningurinn sem við gerum. Annars verður nóg af afþreyingu fyrir alla aldurshópa enda er þetta hátíð fyrir alla fjölskylduna," segir Bragi Bergmann á Akureyri. Hann ætlar að milli sextán og sautján þúsund manns hafi lagt leið sína til Akureyrar síðastu verslunarmannahelgi og býst við svipuðum fjölda í ár. Í Galtalæk fer fram Bindindismót í 45. skipti. "Það er gaman að skemmta sér edrú og fyrir það stöndum við. Þetta er hátíð fjölskyldunnar og þeirra sem vilja skemmta sér án vímuefna. Hér er nóg um að vera, mikið af leiktækjum fyrir krakka og afþreying fyrir alla aldurshópa," segir Sævar Finnbogason, sem er í undirbúningsnefnd mótsins. Hann segir að um fjögur þúsund manns hafi lagt leið sína í Galtalæk í fyrra og vonast eftir fleira fólki í ár. Á Neskaupstað fer fram útihátíðin Neistaflug. "Þetta hefur verið undirbúningsvinna frá því í maí. Allt er á ætlun og nú er verið að leggja lokahönd á undirbúninginn. Samanlagt má ætla að með heimamönnum hafi verið hér milli þrjú og fjögur þúsund manns og þar af eru því tæplega tvö þúsund gestir. Við hlökkum mikið til hér á Neskaupstað," sagði Höskuldur Björgúlfsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×