Erlent

Ekk vitað hvað datt af Discovery

En á myndum frá skynjara tengdum vélinni, sem bárust NASA í morgun, mátti sjá tvo hluti detta af geimferjunni við flugtak. Annað stykkið var þriggja til fjögurra sentimetra langt. Það var staðsett nærri dyrum við lendingarbúnað vélarinnar. Hitt stykkið, sem var töluvert stærra, datt af eldsneytistanki vélarinnar. Nasa hefur ekki enn gefið neinar nánari skýringar á málinu, en þó er vitað að hluturinn rakst ekki utan í flaugina eftir að hann brotnaði af og olli því ekki frekari skemmdum. Fyrsta verk geimfaranna var því að nota fjarstýrða myndavél til þess að skoða gaumgæfilega allt ytra byrði skutlunnar. Það er að minnsta kosti sjö klukkutíma verk, en skömmu fyrir fréttir, þegar verkinu var nærri lokið, hafði ekkert óvenjulegt komið í ljós. Atvikið hefur valdið nokkrum óhug, þar sem því svipar mjög til flugtaks geimferjunnar Kolombíu fyrir tveim og hálfu ári. Discovery kemur aftur inn í lofthjúp jarðar sjöunda ágúst og þá er eins gott að allur búnaður sé í lagi, enda byggist upp gífurlegur hiti þegar ferjan nálgast jörðina. Það var einmitt vegna þess sem Kólombía fórst. Hitahlífar duttu af og mikill hiti komst inn í væng ferjunnar, með þeim afleiðingum að hún splundraðist og öll sjö manna áhöfnin lést samstundis. Geimfararnir í geimferjunni Discovery eiga þann möguleika að leita hælis í alþjóðlegu geimstöðinni, og bíða þar eftir að þeim verði bjargað, ef skemmdirnar á Discovery reynast alvarlegar. Talsmenn NASA segja að á sunnudaginn verði tekin endanleg ákvörðun um hvort gera þurfi við skutluna, eða hvort það sé yfir höfuð hægt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×