Erlent

Fækka hermönnum næsta vor

Forsætisráðherra Íraks vill að Bandaríkjamenn hefji fljótlega brottfluttning herafla síns frá Írak. Æðsti hershöfðingi Bandaríkjamanna segir raunhæft að byrja að fækka hermönnum næsta vor. Ibrahim Al-Jafaari, forsætisráðherra Íraks fundaði með Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Baghdad í morgun. Á fundinum sagði Al Jafaari tímabært að færa öryggisgæslu í Írak úr höndum Bandaríkjamanna, yfir til írakskra öryggissveita. Það væri ekki hægt að dagsetja brottfluttninginn enn um sinn, en hann yrði að hefjast innan skamms. Þá væri það lykilatriði að Bandaríkjamenn myndu ekki hefja brottfluttning heraflans án náinnar samvinnu við Íraka. George Casey, æðsti maður herafla Bandaríkjamanna í Írak, tók í sama streng og Jafaari og sagði að þeir væru að skipuleggja brottflutning og hefðu verið að því undanfarna mánuði. Bæði Casey og Jafaari lögðu samt báðir mikla áherslu á að allt væri þetta háð því að árásum uppreisnarmanna myndi ekki fjölga. Í dag tilkynnti stjórnarskrárnefnd Íraks að það yrði ekki ákveðið fyrr en á síðustu stundu hvort beðið yrði um sex mánaða frest á gerð stjórnarskrárinnar. Hún á að verða tilbúin um miðjan ágúst, en fram að mánaðarmótum er nefndinni heimilt að biðja um hálfs árs frest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×