Innlent

Aukning lyfjaútgjalda hjá TR

Lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar námu tæplega 6,5 milljörðum króna á síðasta ári. Útgjöldin jukust um 8,1% milli ára sem fyrst og fremst má rekja til aukinnar lyfjanotkunar, að því er fram kemur í nýrri kostnaðargreiningu vegna lyfjaútgjalda sem lyfjadeild TR hefur tekið saman. Lyfjanotkun jókst um 5,5% milli ára. Á árinu 2004 námu lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar 6.422 milljörðum króna. Aukningin frá fyrra ári er 8,1% eða 481 milljón króna. Aukin lyfjaútgjöld má fyrst og fremst rekja til aukinnar lyfjanotkunar sem mælist 5,5% milli ára. Greina má almenna aukningu í flestum lyfjaflokkum, sem m.a. má rekja til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og fjölgunar eldri borgara. Notkun nýrri og dýrari lyfja eykst einnig. Aukning í lyfjakostnaði milli áranna 2003 og 2004 er þó minni en undanfarin ár. Milli áranna 2001 og 2002 var 12,5% aukning en milli áranna 2002 og 2003 var hún 9,2%. Samningar heilbrigðisráðherra og Lyfjagreiðslunefndar við frumlyfjaframleiðendur og Pharmaco (nú Actavis) á árinu 2004 skiluðu tæpum 300 milljóna króna sparnaði í lyfjaútgjöldum TR, samkvæmt útreikningum stofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×