Innlent

Slys síðustu verslunarmannahelgar

Sjóvá hefur tekið saman helstu slys sem orðið hafa síðustu 5 verslunarmannahelgar og í skýrslu þeirra kemur fram að þessa helgi aukast verulega alvarleg slys þar sem ekið er útaf, bílar lenda saman úr gagnstæðum áttum auk þess sem meira er ekið á búfé en venjulega. Alls hafa um 170 einstaklingar slasast síðustu 5 verslunarmannahelgar frá föstudegi til mánudags í 700 skráðum tjónum hjá trygginga-félögunum. Flestir slösuðust við útafakstur eða 92 einstaklingar. Fjórðungur slasaðist við aftanákeyrslur. Í þriðja sæti eru slys sem urðu þegar bílar mætast en 12 einstaklingar slösuðust með þeim hætti. Flest óhöppin verða á föstudeginum þegar umferðin er sem mest. 37% tjónanna urðu þá. Flestu slysin verða hins vegar á mánudeginum þegar fólk keyrir heim af útihátíðum. Þar vegur útafakstur þyngst. Ef alvarleiki slysanna er skoðaður þá mátti rekja mjög mörg þeirra til þess að bílbelti var ekki notað. Tjón vegna þess að bakkað var á voru mest á laugardeginum en aftanákeyrslur algengastar á föstudeginum. Það vekur einnig athygli hversu óhöpp þegar bílar úr gagnstæðri átt mætast voru mörg á mánudeginum þegar ökumenn voru á heimleið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×