Erlent

Mikill taugatitringur fyrir skotið

Mikill taugatitringur var á Canaveral-höfða á Flórída í dag þegar niðurtalning fyrir flugtak geimskutlunnar Discovery hófst. Á þriðja tímanum síðdegis átti hún að taka á loft í fyrsta sinn frá því að geimskutlan Columbia fórst 2003 en líkurnar á stórslysi nú eru taldar einn á móti hundrað. Í svona flugtaki er eytt jafnmikilli orku og þarf fyrir áttatíu og sjö þúsund heimili í heilan dag - og það á aðeins tveimur mínútum. Það er kannski ekki skrítið þegar hugsað er til þess að geimskutlan vegur meira en tvö þúsund tonn. Það er líkast til óhætt að fullyrða að horft sé öðrum augum á flugtak af þessu tagi en þegar geimskutlan var splunkunýtt hátæknifyrirbrigði á níunda áratugnum. Nú er hún málmhlunkur sem má muna fífil sinn fegri, uppfullur af tækni frá því á áttunda áratug síðustu aldar - þó að ýmsar uppfærslur hafi verið gerðar. Aðdragandinn var ekki snurðulaus: bilun í mæli í eldsneytistanki varð til þess að flugtaki var frestað fyrir hálfum mánuði. Orsök bilunarinnar fannst reyndar ekki en ákveðið var að láta slag standa þrátt fyrir það. Og nú er hún á sporbraut um jörðu, á leið að Alþjóðlegu geimstöðinni með mannskap og vistir. Það er Eileen Collins sem stýrir för, fyrsta konan sem fer fyrir leiðangri af þessu tagi. Collins hefur þó flogið með skutlunni áður og er raunar ýmsu vön: síðast sló rafmagnið út svo að tvær af þremur tölvum sem stýra hreyflunum duttu út og vetnisleki varð til þess að skutlan varð næstum því eldsneytislaus áður en hún náði sporbraut. Það er kannski ekki furða að NASA skuli skera viðhaldið við nögl því þar á bæ vilja menn leggja flaugunum og hanna næstu kynslóð af svona geimfari: skutlu sem stenst kröfur tuttugustu og fyrstu aldar og gæti jafnvel verið ódýrari og auðveldari í rekstri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×