Innlent

Enginn strætó í Fossvogsspítala

"Nú er búið að slípa þá fáu hnökra sem komu upp í gær," segir Ásgeir Eiríksson framkvæmdastjóri Strætó, nú þegar nokkur reynsla er komin á nýja leiðarkerfið. Fjölmargir hafa haft samband við Fréttablaðið og lýst skoðunum sínum á því og sýnist sitt hverjum. Þar á meðal bárust óánægjuraddir frá starfsmönnum á Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi sem biðu í gær eftir strætisvagninum við torgið fyrir utan anddyri spítalans en þangað kemur enginn vagn lengur. Þótti þeim það mikill galli á nýja leiðarkerfinu þar sem eldra fólk og margir sem ekki eru fráir á fæti eiga erindi á spítalann og fannst þeim spölurinn alllangur í næstu biðskýli sem eru við Bústaðaveg og Háaleitisbraut. Ásgeir segir að ferðir vagnanna inn á torg spítalans hafi oftar en ekki tafist þar sem heilt bílastæði umlykur torgið. Hann segir að næsta biðskýli sé í um það bil 150 metra fjarlægð sem geti ekki talist löng vegalengd. Hann segir að spítalinn við Hringbraut búi við sama kost og hafi hann ekki heyrt kvartanir þaðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×