Innlent

Skorið úr um hæð Hvannadalshnjúks

Í dag verður byrjað að mæla hæð Hvannadalshnjúks með afgerandi hætti en síðasta opinbera mæling er meira en hundrað ára gömul. Tafir urðu á að flytja búnaðinn upp á jökul í morgun þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar var að sinna sjúkraflugi í nótt og svo var skýjaslæða lögst á jökulinn undir hádegi. Spurningin er hvort mögulegt sé að fljúga upp úr skýjunum og lenda í björtu á hnúknum. Einar Sigurðsson í Hofsnesi, sem á Íslandsmet í ferðum upp á Hvannadalsnjúk, telur að skýjaslæðan sé það þunn að hægt sé að fljúga upp úr henni. Menn eru því að ráða ráðum sínum og binda vonir við að tækin komist upp í dag. Tækin eiga að safna gögnum í tvo sólarhringa áður en þau verða sótt aftur, síðan verður unnið úr þeim og eiga niðurstöður að liggja fyrir í byrjun ágúst. Þá segja landmælingamenn að úr því verði skorið hversu hár Hvannadalshnjúkur sé í raun. Íslendingum hefur verið kennt að hann sé 2119 metrar en samkvæmt GPS-mælingum Jöklarannsóknafélags Íslands frá í fyrra er hnjúkurinn átta metrum lægri. Það verður því spennandi að fá niðurstöðurnar, hvort sem mælitækin komast upp í dag eða á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×