Innlent

Brunavörnum víða ábótavant

Brunavörnum á hótelum og veitingastöðum er mjög víða ábótavant. Þetta segir Bjarni Árnason á Hóteli Óðinsvéum en Samtök ferðaþjónustunnar og öryggisfyrirtækið Meton hafa gefið út forvarnarit til að bæta þar úr. Öryggisfyrirtækið Meton hefur í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar gefið út Forvarnarhandbók fyrir hótel og veitingastaði. Bjarni Árnason, kenndur við Brauðbæ, hefur undanfarin 43 ár rekið Hótel Óðinsvé en Bjarni átti margar af hugmyndum sem fram koma í bókinni enda fáir með eins viðamikla reynslu af hótelrekstri. Bjarni segir víða pott brotinn þegar kemur að forvarnarmálum og segir nauðsynlegt að bót verði þar á. Komið hafi fram í fjölmiðlum að stór hluti gistimarkaðarins sé leyfislaus og hann geri ráð fyrir að sami hluti sé eftirlitslaus fyrst hann sé ekki skráður. Þá segir hann ekki nógu vel gengið á eftir því að hótel og gistiheimili fari eftir þeim reglum sem settar eru varðandi öryggisbúnað. Bókin tekur á öllu varðandi forvarnir á hótel og veitingastöðum, allt frá brunavörnum til hvað gera skuli ef hryðjuverk eru framin. Bjarni segir óhöppin ekki banka á dyrnar hjá mönnum - þau bara gerist. Venjulega gerist þau hinum megin við götuna en þau geti komið fyrir mann sjálfan óforvandis. Bjarni hvetur alla þá sem annað hvort reka hótel eða veitingahús að huga vel að forvörnum því eins og yfirskrift bókarinnar segir getur allt sem gerist hjá nágrannanum, einnig gerst hjá þér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×