Innlent

2300 umsóknir um lóðir á Vatnsenda

Bæjarráð Kópavogs úthlutar lóðum á Vatnsenda á fimmtudag en rúmlega 2300 umsóknir bárust. Þeir umsækjendur sem ekki fá lóð núna fá líklega annað tækifæri fljótlega því Kópavogsbær stefnir að því að úthluta rúmlega þrjátíu lóðum til viðbótar á Vatnsenda. Það voru nákvæmlega 2320 sem skiluð inn umsókn. Fundur bæjarráðs Kópavogs hefst í hádeginu á fimmtudag og mun því seinna sama dag liggja fyrir hverjir voru svo heppnir að fá lóð. Í boði voru 75 einbýlishúsalóðir, 20 íbúðir í raðhúsum, 38 íbúðir í parhúsum og 86 íbúðir í fjölbýlum. Einstaklingar gátu sótt um allar lóðirnar nema þær sem eru undir fjölbýlishús. Þær eru fimm talsins og er því að um að ræða fimm fjölbýlishús sem ekki mega vera hærri en tveggja hæða. Þeir sem fá úthlutun hafa mánuð til að ákveða sig en fyrir þann tíma verða tíu prósent af lóðarverði að vera greidd. Að sögn Gunnar I. Birgissonar bæjarstjóra verða væntanlega um 30 lóðir til viðbótar í boði en bærinn vinnur nú að því að fá meira á þessum fallega stað. Allir fá svarbréf en svo er bara að sjá hversu gleðilegt innihald bréfsins verður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×