Erlent

Lögreglan fann leynigöng

Þrír kanadískir menn hafa verið ákærðir fyrir eiturlyfjasmygl og tilraun til stórfellds smygls milli Kanada og Bandaríkjanna. Málið er allt hið ótrúlegasta og virðist sem klippt út úr Hollywood-mynd. Mennirnir hafa undanfarið ár staðið í stórframkvæmdum í orðsins fyllstu merkingu. Til þess að þurfa ekki að smygla eiturlyfjunum í gegnum landamærin gerðu þeir ansi háþróuð 110 metra löng göng undir þau. Göngin lágu frá kofa skammt suður af Vancouver í Kanada og inn í stofu íbúðarhúss í Lynden í Bandaríkjunum. Kanadíska lögreglan komst á snoðir um málið í febrúar þegar framkvæmdir við gangagerðina stóðu sem hæst. Kanadíska lögreglan hafði strax samband við starfsbræður sína Bandaríkjamegin og var fylgst náið með framkvæmdunum upp frá því með myndavélum og upptökutækjum. Í byrjun þessa mánaðar, þegar þremenningarnir höfðu klárað göngin og hugðust fara jómfrúarferðina með 42 kíló af maríjúana í farteskinu, voru þeir handteknir. "Við höfum séð mörg göng sem notuð hafa verið til að smygla eiturlyfjum en þetta eru líklega þau best gerðu," sagði Rod Benson hjá bandarísku fíkniefnalögreglunni (DEA). Göngin eru allt að þriggja metra djúp, styrkt með stálbitum og veggirnir þaktir með timbri. Gólfið er hellulagt og göngin eru upplýst. Leigh Winchell hjá bandaríska heimavarnarráðuneytinu sagði gríðarlega mikilvægt að göngin skyldu hafa fundist strax. Þó að útlit væri fyrir að þau hafi fyrst og fremst verið ætluð til eiturlyfjasmygls hefði hæglega verið hægt að smygla ólöglegum innflytjendum og vopnum í gegnum þau. Hann sagði að göngin yrðu eyðilögð við fyrsta tækifæri. Bandaríska lögreglan hefur alls fundið 34 göng milli Bandaríkjanna og Mexíkó en þetta eru fyrstu göngin sem hún hefur fundið milli Bandaríkjanna og Kanada. Talið er að um 1.700 tonn af maríjúana séu framleidd í Kanada og að um helmingi magnsins sé smyglað til Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×