Erlent

Ferðamenn yfirgefa Egyptaland

Myndbandsupptaka hefur borist af annarri bílsprengjunni í Egyptalandi. Evrópskir ferðamenn streyma frá Sharm el-Sheikh, þúsundum saman. Pólskur ferðamaður sem var úti á svölunum á hóteli sínu var að taka myndir af gamla markaðinum í Sharm el-Sheik þegar önnur bílsprengjan sprakk. Talið er að í bílnum hafi verið um tvöhundruð kíló af sprengiefni. Þrjúhundruð kílóum hafði verið troðið í annan bíl sem sprakk fyrir framan hótel og stórmarkað, og lagði hvorttveggja í rúst. Áttatíu og átta mans létu lífið og yfir eitthundrað slösuðust, margir alvarlega. Þótt fórnarlömbin hafi langflest verið Egyptar, voru einnig margir ferðamenn á meðal þeirra, og þúsundir þeirra sem eftir voru vildu komast heim sem fyrst. Ferðaskrifstofur í Bretlandi, Þýskalandi og Skandinavíu hafa því sent heilu flugflotana til Sharm el-Sheik til þess að flytja farþega sína heim. Þetta er enn eitt áfallið fyrir Sharm el-Sheikh, sem byggir tilveru sína nær eingöngu á ferðamönnum. Ferðamennirnir sem eru að flýja land, prísa sig sæla fyrir að hafa sloppið, og þeir ætla ekki að hætta á að farast í næstu sprengingu. Það er því nóg af tómum hótelherbergjum í Sharm el-Sheik, verslanir eru nánast mannlausar og það sitja fáir á útiveitingahúsunum, þar sem venjulega er iðandi mannlíf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×