Innlent

Framsóknarmenn þora og geta

Samþykkt var á fjölmennum aðalfundi félags Framsóknarmanna í Reykjavíkukjördæmi norður að hvetja forystu flokksins til að bjóða fram undir merkjum Framsóknarflokksins, náist ekki samkomulag um framboð R-listaflokkanna. Ályktunin felur í sér skýr skilaboð til hinna R-lista flokkanna að Framsókn hafi þor og getu til að fara fram ein og sér, og ber með sér enduróm af skilaboðum frá Samfylkingunni. Þorlákur Björnsson, formaður kjördæmasambands flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að að það felist ekki hótun í ályktuninni  heldur sé verið að biðja menn um að ef uppúr slitni gerist það sem fyrst svo að hægt sé að undirbúa kosningar. Aðspurður um hvort að það beri vott um veikleika að stjórnmálaflokkar þurfi að taka það sérstaklega fram að þeir ætli að bjóða fram segir Þorlákur svo ekki vera því umræðan hefur verið á þá lund að Framsóknarflokkur þori ekki og því fannst þeim tímabært að leggja áherslu á að svo væri.  Þorlákur á einnig sæti í viðræðunefnd R-listaflokkanna sem reynt hefur að finna flöt fyrir áframhaldandi samstarfi vildi lítið gefa út á það hvort R-listinn væri í dauðateygjunum, líkt og haldið hefur verið fram. Í samtali við fréttastofu sagði Alfreð Þorsteinsson, forseti Borgarstjórnar og oddviti Framsóknarmanna í borgarráði sagði að ekki væri tímabært að spá fyrir um niðurstöðuna út frá atburðarrás síðustu vikna. Svona hefði þetta verið árum saman. Undir það taka fleiri. Segja að líkt og áður sé tekist á um það hvernig stilla eigi mönnum upp og hver fái hvað, hversu marga fulltrúa og í hvaða röð þeir skipist í nefndir og ráð. Hver fái embætti borgarstjóra, hvernig eigi að stilla upp og hvernig skuli staðið að prófkjöri. En ólíkt því sem áður hefur verið virðast menn nú telja í góðu lagi þótt R-lista samstarfinu ljúki, og er þá sama til hvaða flokks er litið. Samfylkingin er sögð full sjálfstrausts og gráðug, líkt og Framsókn sem vill halda fast í sitt og gott betur. Og Vinstri grænir eru sagðir vilja sannreyna hvað sé hæft í því að þeir hafi 16%  fylgi líkt og skoðanakannanir benda til. Hvort Reykjavíkurlistinn starfi áfram í óbreyttri mynd ætti að verða ljóst um eða eftir næstu helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×