Erlent

83 látnir og hundruðir særðir

Að minnsta kosti áttatíu og þrír létu lífið í röð sprengjuárása í Egypsku hafnarborginni Sharm el-Sheik, við Rauðahafið, í morgun. Mörghundruð til viðbótar eru særðir. Fjölmargir erlendir ferðamenn eru meðal hinna myrtu og slösuðu. Hver sprengingin af annarri skók Sharm el-Sheik snemma í morgun og aðkoman var skelfileg. Lík og líkamshlutar lágu eins og hráviði út um allt, og sært fólk lá veinandi á hjálp. Mikil skelfing greip um sig, en björgunarsveitir voru fljótar á vettvang og sagðar hafa gengið fagmannlega til verks. Allt læknalið borgarinnar var kallað út, en þar fjöldi særðra var svo mikill var gripið til þess ráðs að flytja fólk flugleiðis til Kaíró. Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sem var í sumarleyfi við Miðjarðarhafið, flaug hinsvegar til Sharm el Sheik til þess að fylgjast með björgunarstarfinu. Árásirnar voru gerðar á hótel og útimarkaði, þar sem margir voru á ferli. Sharm el-Sheik er vinsæll ferðamannastaður og yfirvöld segja að margir útlendingar hafi látið lífið eða særst. Langflest fórnarlömbin voru hinsvegar Egyptar. Borgarstjórinn í Sharm el-Sheik segir að tvær bílsprengjur hafi verið sprengdar og hugsanlega ein sprengja í ferðatösku. Sprengjurnar voru svo öflugar að það fannst fyrir þeim í tíu kílómetra fjarlægð. Miklir eldhnettir risu upp frá sprengjustöðunum. Hryðjuverkamenn hafa gert þó nokkrar árásir í Egyptalandi, á undanförnum árum, og þá oftar en ekki á staði sem erlendir ferðamenn sækja. Innanríkisráðherra Egyptalands segir að of snemmt sé að segja til um hvort al-Kaída eða önnur hryðjuverkasamtök beri ábyrgð á þessum verknaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×