Innlent

Fjármálaeftirlit ósátt við viðauka

Fjármálaeftirlitið telur að formaður og varaformaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins hafi farið út fyrir umboð sitt þegar þeir gerðu viðauka við ráðningarsamning framkvæmdastjóra sjóðsins. Fjármálaeftirlitið gerir alvarlega athugasemd við þá ráðstöfun. Gengið var frá starfslokum, Jóhannesar Siggeirssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, í febrúar á þessu ári. Þá kom í ljós að í maí árið 2000 hafði fyrrverandi formaður og varaformaður sjóðsins útbúið viðauka við ráðningasamninginn sem stjórnin vissi ekki af. Núverandi stjórn leitaði álits lögmanna vegna þessa og liggur niðurstaðan fyrir; stjórnin sér ekki forsendur til annars en að standa við skriflegan samning við framkvæmdastjórann því samkvæmt ráðningasamningnum átti þáverandi formaður og varaformaður að hafa haft umboð til að gera viðauka við hann án aðkomu annarra stjórnarmanna. Vegna þessa skal samningur um starfslok hans taka mið af gildandi ráðningasamningi ásamt viðaukum. Fjármálaeftirlitið hefur lokið rannsókn málsins og getur ekki fallist á þessa skoðun stjórnarinnar, þ.e. að mennirnir hafi haft umboð til að gera þessar breytingar, því samkvæmt ákvæðum í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal stjórn lífeyrissjóðs, ekki einstaka menn í henni, ákveða laun og ráðningakjör framkvæmdastjóra. Fjármálaeftirlitið mun hins vegar ekki grípa til frekari aðgerða því fyrningarfrestur vegna brota á þessum lagaákvæðum er liðinn. Fjármálaeftirlitið gerir þó alvarlega athugasemd við að stjórn sjóðsins hafi ekki verið kunnugt um starfslokakjör framkvæmdastjórans. Gengið hefur verið frá ráðningu núverandi framkvæmdastjóra samkvæmt nýjum verklagsreglum sem stjórnin samþykkti í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um þetta tiltekna mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×