Erlent

Fimmtungur konur og börn

Tæplega 25.000 borgarar hafa látist af völdum átaka í Írak síðan ráðist var þar inn vorið 2003. Samtökin Iraqi Body Count og Oxford Research Group hafa birt skýrslu um mannfall óbreyttra borgara í Írak síðan Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust inn í landið í mars 2003. BBC hermir að friðarsinnar og fræðimenn hafi byggt skýrsluna á rúmlega 10.000 fréttum og blaðagreinum. Í skýrslunni kemur fram að 24.865 manns hafi fallið í ofbeldisverkum á þessum tíma, eða um 34 á dag. Fimmtungur látinna eru konur og börn og helmingur dauðsfallanna varð í höfuðborginni Bagdad. Uppreisnarmenn eru sagðir ábyrgir fyrir dauða níu prósenta þeirra sem hafa fallið, aðrir ofbeldismenn fyrir 36 prósentum og bandarískir hermenn fyrir 37 prósentum. Skýrsluhöfundar gagnrýna bresk og bandarísk stjórnvöld fyrir að hafa ekki sjálf hirt um að afla gagna um fjölda látinna í innrás sem þau stóðu sjálf fyrir. Íraska ríkisstjórnin kvaðst fagna útkomu skýrslunnar en taldi fráleitt að uppreisnarmenn hefðu orðið færri að bana en hernámsliðið. "Hersveitirnar reyna að koma í veg fyrir mannfall óbreyttra, hryðjuverkamenn hafa beinlínis að markmiði að drepa sem flesta," sagði í yfirlýsingu stjórnarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×