Innlent

Dýrahótelin að fyllast

Nú fer hver að verða síðastur að panta pláss á dýrahóteli fyrir gæludýrin sín en dýrahótel njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi í kjölfar aukinnar gæludýraeignar. Sums staðar eru plássin bókuð langt fram í tímann og jafnvel allt orðið fullt fyrir sumarið. Hundaeign hefur aukist talsvert undanfarin ár, spurn eftir pössun fyrir dýrin verður sífellt meiri og þá koma dýrahótelin að góðum notum fyrir þá sem geta ekki leitað til aðstandenda til að passa. Það er nóg að gera á Hundahótelinu að Leirum þar sem nánast fullbókað er út sumarið. Búrin eru 36 en fleiri en einn hundur kemst í hvert búr ef þeir koma frá sama heimili. Þessa dagana eru rúmlega 40 hundar í pössun en kettir, fuglar og nagdýr geta einnig fengið gistingu á hótelinu. Þar eru nú fimm kettir og einn páfagaukur. Nú þegar fólk er komið í sumarfrí og fer jafnvel til útlanda eru dýrin oft sett í pössun í mislangan tíma, allt frá einum degi og upp í mánuð. Einnig mikið að gera á öðrum hundahótelum landsins og fer til dæmis hver að verða síðastur að bóka gistingu í sumar á Dýrahótelinu í Víðidal en þar eru enn nokkur pláss laus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×