Innlent

Minnisvarði afhjúpaður á Ísafirði

Minnisvarði var afhjúpaður á Ísafirði í gær um fólkið sem lét lífið þegar sex skip sukku út af Vestfjörðum í síðari heimsstyrjöld. Minnisvarðinn er gjöf frá rússneskum stjórnvöldum í tilefni af því að 60 ár eru um þessar mundir liðin frá lokum styrjaldarinnar. Þann 6. júlí 1942 fórust fjögur bandarísk flutningaskip, rússneska skipið Rodina og breski tundurspillirinn Niger út af Vestfjörðum þegar skipalestin sigldi inn á breskt tundurduflabelti. 200 Rússar létust þennan dag, þar á meðal konur og börn rússneskra stjórnarerindreka í London. Daginn áður höfðu þýskir kafbátar, herskip og flugvélar sökkt 12 skipum bandamanna á Íslandsmiðum í einni mannskæðustu sjóorrustu styrjaldarinnar. Fyrir vikið ákvað skipalest PQ-13, skipalestin sem Rodina var hluti af, að taka á sig krók og sigla norður fyrir Ísland. Siglingafræðingarnir sem vísuðu veginn gerðu hins vegar afdrifarík mistök; þeir villtust af leið og sigldu beint inn í breskt tundurduflabelti út af Horni á Vestfjörðum og öll skipin sukku með manni og mús. Rússneski sendiherrann á Íslandi, Alexander Rannikh, hafði frumkvæði að því að reisa minnisvarðann sem í gær var afhjúpaður á Ísafirði í minningu þeirra sem létust þennan dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×