Innlent

Risabor snúið við

Grípa varð til þess neyðarúrræðis við gangagerð á Kárahnjúkum að snúa einum risaboranna við, þegar hann átti aðeins eftir um kílómetra að Hálslóni. Borinn lenti á óþéttu bergi og vatn tók að streyma inn. Verkinu miðaði vel í upphafi og borinn stefndi óðfluga að Hálslóni í byrjun mánaðar, en síðan tók við tveggja kílómetra langur kafli þar sem gekk mun hægar vegna óþétts bergs með tilheyrandi vatnsrennsli. Þá var gripið til þess ráðs að þétta bergið framan við borkrónuna jafnóðum með sementsgraut. Þegar borinn átti eftir um ellefuhundruð metra að Hálslóni, á föstudag, þurfti að stöðva hann og nú hefur verið ákveðið að sprengja síðasta áfangann á hefðbundinn hátt, þegar borinn er farinn úr göngunum.  Það tekur hins vegar margar vikur að snúa bornum við, enda er hann engin smásmíð. Hundrað og tuttugu metra langur og vegur sex hundruð tonn. Borkrónan ein vegur um 75 tonn. Umhverfis hana verður sprengdur hellir í bergið til að hægt verði að losa af henni ýmsan búnað áður en bornum verður bakkað út. Þá þarf að taka borinn í sundur og setja aftur saman öfugan. Því má ætla að ekki verði byrjað að bora í hina áttina fyrr en í haust, til móts við bor tvö en sá hefur einnig tafist í nokkrar vikur vegna lausra jarðlaga. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Sigurður Arnalds,  segir að reiknað hafi verið með því að nokkrir mánuðir færu í tafir vegna jarðfræðilegra erfiðleika. Sá tími sé ekki enn uppurinn, þrátt fyrir tafirnar. Gangagerðin eigi því, þrátt fyrir þessi vandkvæði að geta staðist áætlun, ef ekkert annað fer úrskeiðis úr þessu, en stefnt er að því að vatni verði hleypt á göngin í janúar árið 2007. Verulegur vatnsagi er enn þar sem borinn var stöðvaður og vatnið rennur sem leið liggur út úr göngunum, um 800 lítrar á sekúndu. Boruð hefur verið hola af yfirborðinu og niður í göngin þar sem þau fara undir Glúmsstaðaá og þar á að dæla upp hluta af vatninu til að draga úr rennslinu út aðrennslisgöngin. Til samanburðar má geta þess að með risaborunum verða boraðir 50 kílómetrar af þeim 72 kílómetrum af jarðgöngum sem þarf vegna Kárahnjúkavirkjunar. Það jafngildir því að boruð væri göng frá Reykjavík til Munaðarness í Borgarfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×