Þrjú þúsund á sumarhátíð

Þrjú þúsund starfsmenn Vinnuskóla Reykjavíkur komu saman í Laugardalnum á sumarhátíð skólans sem haldin var í gær. "Það myndaðist ótrúlega góð karnívalstemning í góða veðrinu," segir Höskuldur Darri Ellertsson, upplýsingafulltrúi Vinnuskólans. Höskuldur segir hátíðina í alla staði hafa farið vel fram en meðal annarra komu fram tónlistarmennirnir Davíð Smári og Hildur Vala. Þá kepptu 350 manns í fótbolta en alls var keppt í sautján íþróttagreinum. "Þetta var hörkufjör og hápunktur starfsins hjá okkur í sumar," segir Höskuldur.