Innlent

Banamein var skot í höfuð

Krufning leiddi í ljós að Gísli Þorkelsson var skotinn í höfuðið af stuttu færi fyrir um fimm vikum. Fjölmiðlar í Suður Afríku í dag greindu frá því að húseigandinn í Boksburg sem fann lík Gísla Þorkelssonar á sunnudag hafi um páskana farið í útilegu ásamt Gísla og parinu sem myrti hann. Í útilegunni bauðst parið til þess að keyra Gísla á flugvöllinn þar sem hann ætlaði að heimsækja systur sína til Bandaríkjanna. Að sögn húseigandans var Gísli nýbúinn að selja fasteign sem hann átti og var því með töluvert fé á milli handa, en talið er að parið hafi myrt Gísla til að komast yfir fjármuni hans. Gísli stundaði viðskipti í Suður Afríku og hafði búið þar um ellefu ára skeið. Saksóknari í málinu segir að parið hafi selt bíl sem Gísli átti og reynt að ná peningum út af reikningum hans. Að sögn lögreglunnar í Boksburg í Suður Afríku hefur karlmaðurinn ekki játað verknaðinn, en konan játaði í gær að hafa orðið Gísla að bana. Þau munu mæta fyrir rétt þann 22. ágúst, en verða í gæsluvarðhaldi fram að þeim tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×