Innlent

Baugur með augum Breta

Breskir fjölmiðlar halda því fram í umfangsmikilli umfjöllun sinni um Baugsmálið að sambandsslit, afbrýðisemi og pólitísk óvild séu kveikjan að rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglusjóra á hendur Baugsmönnum. Óhætt er að segja að breskir blaðamenn dragi upp all sérstaka mynd af íslensku þjóðfélagi í skrifum sínum í dag. Af þeim má ráða að íslensk stjórnmál séu gerspillt og stórfyrirtæki fjármögnuð með peningum frá Rússlandi. Frásagnirnar eru kryddaðar reyfarakenndum lýsingum á persónum og leikendum í Baugsmálinu. Í viðtali sem The Sunday Times birti við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs í dag er sagt að litið sé á Jón Ásgeir sem þjóðhetju meðal íslensks almennings, fyrir að hafa lækkað vöruverð í landinu. Fatnaður hans er jafnvel gerður að umtalsefni og hann sagður minna meira á poppstjörnu en viðskiptamann. Í viðtalinu er sagt að velgengni Jóns Ásgeir hafi valdið uppþoti hjá íslenskum stjórnvöldum. Eftir honum er haft að gamlar fjölskyldur hafi þar til nýverið ráðið lögum og lofum í landinu, og verið nátengd stjórnvöldum. Látið er að því liggja að óvild stjórnvalda í garð fyritækisins hafi verið kveikjan að lögreglurannsókn hjá félaginu og í sama streng tekur dagblaðið The Independent, þar sem segir að ekkert launungarmál sé að fyrrum forsætisráðherra og forstjóra Baugs semji illa. Þetta sagði Davíð Oddsson sagði í viðtali við Stöð tvö í lok júní, en þá hafði Jón Ásgeir hafði viðrað það sjónarmið hjá BBC: „EF lögreglan væri virkilega með pólitískar athafnir yrði því hent út í einum logandi grænum hvelli.“ Daily Mail segir kveikjuna að yfirvofandi málaferlum á hendur Baugi hins vegar að finna í ásökunum Jóns Geralds Sullenberger um fjármálamisferli í tengslum við skútuna The Viking. Fullyrt er að Jón Gerald hafi sagt að Jón Ásgeir hafi notað greiðslukort Baugs til að greiða fyrir vændiskonur í samkvæmi um borð. Þá tíunda blaðamenn Sunday Times það í grein sinni að síðasta vika hafi verið Jóni Ásgeiri og viðskiptavinum hans sérlega erfið. Ekki einungis hafi hann orðið fyrir árásum íslenskra stjórnvalda heldur einnig frá fyrrum kærustu föður síns, Jónínu Benediktsdóttur. The Independent lýsir Jónínu sem Femme fatale, sem hafi tekist að hrinda af stað lögreglurannsókninni hjá á Baugi. Haft er eftir heimildarmanni blaðsins að árásir hennar stafi og reiði og biturð í garð fjölskyldu Jóns Ásgeirs. Fréttastofan hafði uppi á Jónínu Benediktsdóttur í Borgarfirðinum í dag, konunni sem ýmist er lýst sem háskakvendi eða ísdrottningu í virtum breskum fjölmiðlum. Sjálf segist hún undrast mjög að vera gert svo hátt undir höfði að vera talin standa á bak við 40 liða lögregluákæru á hendur Baugi og segir málið ekkert snúast um sig og Jóhannes. Hún segir líka að skrif bresku blaðanna sé hins vegar dæmigerð valdníðsla með peningum. Jónína segist hafa heyrt allt sem þarna stendur áður og hún segir þá vera litla strákar sem sýna sitt innra eðli en hún hefur ekki áhuga á því að standa í stríði við þá. Henni finnst þeir orðnir of stórir á Íslandi og hefur tjáð sig um það. Hún bendir líka á að engu sé líkara en ef fólk tjái s ig þá sé það lagt á versta veg. Íslenskur viðskiptaheimur fær sinn skammt af athygli í bresku stórblöðunum. Í The Independent lýsir breskur kaupsýslumaður því yfir að það minni um margt á það Rússneska og blaðmenn Times segjast hafa fengið pata af því að peningarnir að baki Baugi komi frá Rússlandi. Því vísar Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs á bug í greininni. The Independent veltir því einnig upp að Baugsmálið gæti haft víðtæk áhrif fyrir önnur fyrirtæki sem starfa ytra og í því sambandi er minnst á Burðarás, Bakkavör, Icelandair, Hvíta húsið, Kauþing, Landsbanka og Íslandsbanka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×