Innlent

Byggingarfyrirtæki í rannsókn

Grunur leikur á að íslenskt byggingarfyrirtæki standi að innflutningi erlendra verkamanna sem starfa án tilskilinna leyfa hér á landi. Alþýðusamband Ísland hefur upplýsingar um aðkomu fyrirtækisins að slíkum málum og rætt hefur verið við forsvarsmenn þess. Lögreglu hefur jafnframt verið tilkynnt um málið. Fulltrúar ASÍ könnuðu í síðustu viku fimm staði þar sem rökstuddur grunur er um að ólöglegir erlendir verkamenn hafi verið við störf í Reykjavík, Garðabæ og í Hveragerði. Gripið var í tómt á öllum stöðunum nema einum þar sem tveir menn, Letti og Tékki, stukku niður af svölum og lögðu á flótta þegar fulltrúa ASÍ bar að. Á hinum stöðunum var enginn við störf en sjá mátti ummerki um starfsemi. "Við erum að reyna að ná sambandi við þessa menn til þess að kynna þeim réttindi þeirra," segir Sigurður Magnússon, starfsmaður átaks gegn undirboðum á vinnumarkaði hjá ASÍ. "Einnig reynum við að ná tali af atvinnurekendunum til þess að leiðbeina þeim um hvernig rétt skuli standa að þessum málum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×