Erlent

Sterling í eigu Íslendinga

Og meira af útrás íslenskra athafnamanna í ferðageiranum: Danska flugfélagið Maersk verður sameinað Sterling eftir að eignarhaldsfélagið Fons keypti Maersk í dag. Félagið verður fjórða stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Fons er í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar sem eiga fyrir Iceland Express og Sterling. Óvíst er hvaða áhrif samruni Maersk og Sterling hefur á Iceland Express, en félagið verður stærsta lággjaldaflugfélag Norðurlanda. Ekki er gefið upp hvað Fons borgar A.P. Möller fyrir Maersk, en félagið hefur verið rekið með tapi. Á síðasta ári var það fjögur hundruð níutíu og níu milljónir danskra króna, sem er nærri því fimm komma þrír milljarðar íslenskra króna. Almar Örn Hilmarsson, sem verður framkvæmdastjóri hins sameinaða félags, telur hins vegar að nú taki gróðareksturinn við og segir orðrétt: „ Við teljum að með þessu megi búa til traust fyrirtæki sem sé komið til að vera a.m.k. næstu 10-15 árin. Fólk getur treyst á að geta keypt ódýra flugmiða frá Danmörku og öðrum Skandinavíulöndum.“ Aðspurður um milljaðratap A.P. Möller á fyrirtækinur segir Almar að hann hafi trú á því að fyrirtækin tvö eigi vel saman og að hægt sé að mynda gott framtíðarfyrirtæki úr þeim saman. En að það verði auðvitað hagræði í rekstrinum og það hjálpi og hann hefur trú á framtíð fyrirtækisins. Hugmyndir um sameiningu Sterling og Maersk Air hafa lengið verið uppi en það er fyrst nú sem þeim verður hrint í framkvæmd. Danskir sérfræðingar telja að sameiningin hafi ekki áhrif á miðaverð en að líkast til verði fleiri áfangastaðir í boði. Sem stendur bjóða félögin upp á áttatíu áfangastaði. Sérfræðingarnir segja jafnframt að sameiningu þýði nýja stöðu á norrænum flugmarkaði og að áhrifana gæti gætt víðar. Forráðamenn félagsins hafa enda sagt að þeir hyggist ekki einungis kljást við önnur lággjaldaflugfélög, heldur líka risann á norræna markaðnum: SAS. Talsmenn þess segja dönskum fjölmiðlum að sameiningin sýni fyrst og fremst að enginn græði eins og fargjöld séu nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×