Innlent

Skjár einn semur við Playboy

Íslenska sjónvarpsfélagið, sem er að hluta í eigu ríkisfyrirtækisins Símans og rekur sjónvarpsstöðina Skjá einn, hefur gengið frá samningi um efniskaup frá bandaríska klámframleiðandanum Playboy. Hluti af Playboy TV í Evrópu er meðal annars sjónvarpsstöðvarnar The Adult Channel, Spice Extreme, Spice Platinum og Climax3. Myndefni Playboy verður hluti af framboði gagnvirks sjónvarps Skjás eins, sem hefur göngu sína um ADSL-háhraðatengingar í byrjun september. "Þetta er hugsað sem hluti af efnisframboði þar, en verður að sjálfsögðu harðlokað og læst þeim sem ekki eiga að hafa aðgang þar að," segir Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjás eins. Hann segir vörumerkið í raun skýra sig út sjálft, en efnið sé vænt og fólk geti vitað að hverju það gengur. "Þetta er alls ekki eini svona samningurinn sem er í gangi," sagði Magnús jafnframt og benti á að 365 ljósvakamiðlar væru með mjög sambærilegan samning við fyrirtæki sem heitir Private Blue. "Og enn svæsnari samning við Private Gold, en við treystum okkur ekki til að fara jafn langt í efni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×