Erlent

Marshall-aðstoð vorra tíma

Breska ríkisstjórnin ætlar að berjast fyrir því að striki verði slegið yfir stóran hluta skulda þróunarlandanna og mannúðaraðstoð við þau verði snaraukin. Bandaríkjamenn eru hins vegar í mörgum atriðum andvígir þessum áformum. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, kynnti áætlanir sínar um það sem hann kallar "Marshall-aðtoð okkar tíma" á fundi í Edinborg á fimmtudagskvöldið. Samkvæmt tillögunum verða fátækustu ríkjum heims, sem flest eru í Afríku sunnan Sahara, gefnar upp skuldir sínar hjá stofnunum á borð við Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Afríska þróunarbankanum. Verði þetta ekki gert þurfa þróunarlöndin að greiða um þúsund milljarða króna í afborganir á lánum næsta áratuginn. "Nú er hvorki tími fyrir hálfkák né ótta um of háleit markmið. Nú er tækifæri fyrir okkur til að snúa gæfuhjóli heillar heimsálfu henni í vill og gerbreyta lífi milljóna manna," sagði Brown á fundinum. Brown hefur lengi verið áhugamaður um að draga úr skuldabyrði þróunarlandanna og því hafa Bretar einsett sér að gera málefnið að sínu höfuðmarkmiði meðan á formennsku þeirra í hópi átta helstu iðnríkja heims stendur. Fundur þeirra hefst í Gleneagles í Skotlandi 6. júlí næstkomandi og tímann þangað til ætla Bretar að nota til að sannfæra aðrar þjóðir um nauðsyn áætlana sinna. Fyrir utan afléttingu skulda hyggst Brown beita sér fyrir auknum framlögum til mannúðar- og þróunaraðstoðar og að viðskiptahindrunum verði rutt úr vegi svo að fátækari þjóðir eigi hægara um vik að selja vörur sínar á heimsmarkaði. Bróðurpartur þeirra fjármuna sem löndin fengju vegna þessara ráðstafana yrði sérstaklega eyrnamerktur menntamálum. Bretar hyggjast ganga sjálfir á undan með góðu fordæmi og greiða tíu prósent skulda 22 fátækustu ríkja heims við alþjóðastofnanirnar. Kanadamenn og Hollendingar ætla að gera slíkt hið sama. Bandaríkjamenn hafa hins vegar lýst því yfir að margir liðir áætlunar Browns séu þvert á hagsmuni þeirra og fjárlagastefnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×