Erlent

Evrópusamruninn er í uppnámi

Pólitískt uppnám ríkir nú innan Evrópusambandsins eftir að Hollendingar kolfelldu stjórnarskrársáttmála sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrradag. Leiðtogar aðildarríkjanna munu á næstu vikum leita leiða til að bjarga því sem bjargað verður af sáttmálanum. Atkvæðagreiðslan í Hollandi var aðeins ráðgefandi en engu að síður brást Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, skjótt við í gær og dró til baka frumvarp um fullgildingu sáttmálans sem lá fyrir hollenska þinginu. Í ræðu sinni við þetta tækifæri sagði Balkenende að ráðamenn aðildarríkjanna hefðu þjösnað Evrópusamrunanum áfram án þess að spyrja þjóðir sínar um áhuga þeirra á því. "Núna verður Brussel að koma sér í samband við fólkið á ný. Við verðum að hlusta betur á borgarana og láta af öllum hástemmdum áformum nema fyrir þeim liggi skýr vilji hjá umbjóðendum okkar." Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, hraðaði sér til Lúxemborgar í gær til skrafs og ráðagerða við Jean-Claude Juncker forsætisráðherra, en Lúxemborg er í forsæti ESB út þennan mánuð. Á laugardaginn mun svo Jacques Chirac Frakklandsforseti halda til Berlínar, þar sem þeir Schröder munu vafalítið leggja á ráðin um hvernig koma megi sambandinu úr þeirri klemmu sem það er í þessa dagana. Leiðtogar flestra aðildarríkjanna lýstu yfir vonbrigðum með úrslitin í gær, nema þá helst Vaclav Klaus, forseti Tékklands. Hann sagði úrslitin í Hollandi sigur frelsis og lýðræðis í álfunni og lét auk þess þá skoðun í ljós að ólýðræðislegt væri að láta þjóðþing staðfesta sáttmálann án þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og mörg aðildarríkjanna gera. Fyrir síðustu helgi aftóku forsvarsmenn ESB með öllu að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskrársáttmálanum. Í gær sagði talsmaður framkvæmdastjórnarinnar hins vegar að til greina kæmi að sáttmálinn yrði tekinn til gagngerrar endurskoðunar á leiðtogafundi sambandsins sem haldinn verður í Brussel 16.-17. júní.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×