Erlent

Hátt í 40 manns liggja í valnum

Að minnsta kosti 38 létust og yfir fimmtíu særðust í þremur sprengjuárásum í norðurhluta Íraks í gær. Mannskæðasta sprengingin var í bænum Tuz Khormato þar sem 12 manns létust og 40 særðust. Bílsprengja var sprengd utan við veitingahús þar sem lífverðir aðstoðarforsætisráðherra Íraks sátu yfir borðum, en ráðherrann var ekki sjálfur á staðnum. Veitingahúsið eyðilagðist í sprengingunni. Í bænum Baqouba var Hussein al-Tamimi, aðstoðarhéraðsstjóra í Diyala-héraði, banað ásamt þremur lífvörðum sínum. Fjórir særðust í þeirri árás. Í Kirkuk féllu hins vegar þrír vegfarendur og tíu særðust í sjálfsmorðsárás. Þeirri árás var beint gegn bílalest sem í voru borgalegir verktakar. Skemmdir urðu á einum bílanna, en enginn verktakanna meiddist. Einnig féll bandarískur hermaður nærri Ramadan í vegsprengju á miðvikudag. Nú hafa um 800 fallið fyrir uppreisnarmönnum í Írak síðan ríkisstjórn var formlega mynduð 28. apríl síðastliðinn. Ekkert lát virðist vera á uppreisninni í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×