Erlent

Blaðamaður myrtur í Beirút

Líbanskur blaðamaður lést þegar bíll hans sprakk fyrir utan heimili hans í hverfi kristinna í höfuðborginni Beirút í dag. Samir Qasir var þekktur andstæðingur ríkisstjórnar Líbanons, sem þykir höll undir Sýrlendinga, og ritaði hann reglulega pistla sem beindust gegn henni. Lögregla í Beirút segir sprengju hafa verið komið fyrir undir bílstjórasætinu, en í tilræðinu lést einn vegfarandi og annar særðist. Ekki er ljóst hver stóð á bak við það. Aðeins eru þrír og hálfur mánuður síðan Rafiq Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum í bílsprenguárás en það morð leiddi til þess að Sýrlendingar urðu að hverfa með her sinn og leyniþjónustu frá Líbanon í lok apríl. Í kjölfarið var boðað til þingkosninga í Líbanon, en þær hófust 29. maí og lýkur um miðjan mánuðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×