Erlent

Velta fyrir sér framtíð ESB

Leiðtogar Evrópusambandsríkja eru væntanlega þungt hugsi yfir framtíð bandalagsins, eftir að hollenska þjóðin kolfelldi stjórnarská þess í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. 62 prósent Hollendinga sögðu nei við stjórnarskránni sem er ívið meira en í Frakklandi þar sem 55 prósent kjósenda kusu gegn henni. Tvær af stofnþjóðum Evrópusambandsins hafa því hafnað henni. 62 prósent atkvæðisbærra manna greiddu atkvæði sitt í kosningunum í Hollandi í gær, mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir. Hollensk yfirvöld höfðu sagt að kosningarnar væru ekki bindandi nema þrjátíu prósent þjóðarinnar tæki þátt.  Forsætisráðherra Hollands, Jan Peter Balkenende, lýsti yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna í gærkvöld en tók fram að stjórnvöld myndu virða vilja þjóðarinnar. Formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, sagði eftir að úrslitin voru ljós að vandamálin væru ekki óyfirstíganleg en Jack Straw, utnaríkisráðherra Bretlands, sagði að niðustöðuna vissulega veka upp spurningar um framtíðarstefnu sambandsins. Jacques Chirac, Frakklandsforseti, tók í sama streng. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagði hins vegar að staðfestingarferli stjórnarskrárinnar yrði að halda áfram þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar hefðu hafnað henni. Þýskaland er eitt þeirra níu landa sem samþykkt hefur stjórnarskrána en samþykki allra 25 aðildarríkja sambandsins þarf til að stjórnarskráin taki gildi. Ljóst er að leiðtogar sambandsríkjanna eru undir gríðarlegri pressu þessa dagana. Staðfesting stjórnarskrárinnar fyrir árið 2006 hafði verið markmiðið áður en hún tæki gildi árið 2007. Það stefnir því í að leiðtogar þjóðanna þurfi að endurskoða framtíðaráform sambandsins þegar þeir funda í Brussel eftir tvær vikur. Tony Blair tekur þá við leiðtogahlutverki innan sambandsins og fellur það væntanlega í hans hlut að greiða úr flækjunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×