Erlent

Spyrja sig um framtíðarstefnu ESB

Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gærkvöld að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrá ESB í Hollandi vekti upp spurningar um framtíðarstefnu ESB. Þá tók Jacques Chirac Frakklandsforseti í sama streng. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagði eftir atkvæðagreiðsluna í Hollandi að staðfestingarferli stjórnarskrárinnar yrði að halda áfram þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar, sem eru meðal stofnþjóða Evrópusambandsins, hefðu hafnað henni. Kanslarinn sagðist vera sannfærður um að Evrópa þyrfti á stjórnarskránni að halda ef álfan ætti að verða sú öflugasta í heimi. Óttast er að Frakkar og Hollendingar hafi verið að refsa ríkisstjórnum sínum fyrir slakt gengi með því að hafna stjórnarskrá ESB en þó segja margir sérfræðingar þegna þessara landa vera að gera sér sjálfum mesta grikkinn þar sem Evrópa geti einfaldlega ekki verið samkeppnishæf við Asíu og Bandaríkin nema sameinuð sé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×