Erlent

Hollendingar segja nei

Hollendingar kolfelldu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær og virðast dagar þessa umdeilda plaggs þar með taldir. Kjörsókn fór fram úr björtustu vonum en alls neyttu 62 prósent þjóðarinnar kosningaréttar síns. Þegar ríflega 80 prósent atkvæðanna höfðu verið talin höfðu 61,8 prósent kjósenda sagt nei en aðeins 38,2 prósent já. Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, flutti sjónvarpsávarp um leið og úrslitin voru ljós. "Hollenska þjóðin hefur kveðið upp dóm sinn og niðurstaðan er afar skýr. Ég er vitaskuld vonsvikinn yfir henni en mun að sjálfsögðu virða hana." Þar með hafa tvö stofnríki sambandsins hafnað stjórnarskránni á fáeinum dögum og því næsta útilokað að hún muni taka gildi, nema þá í mjög útvatnaðri mynd. Jacques Chirac Frakklandsforseti sagði í viðtölum í gærkvöld að úrslitin í Hollandi vektu alvarlegar spurningar um framtíð samrunaferlisins í Evrópu. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, kvaðst harma mjög dóm hollensku þjóðarinnar en skoraði á aðildarríkin að láta ekki niðurstöðuna leiða til tilvistarkreppu í sambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×