Erlent

Var óánægður með afskipti Nixons

Hulunni hefur verið svipt af þriggja áratuga leyndardómi um hver hinn svonefndi Deep Throat var eða heimildarmaður í Watergate-hneykslinu. Mark Felt, sem var annar í röð æðstu yfirmanna hjá bandarísku alríkislögreglunni hefur gengist við hlutverkinu. Mark Felt, sem nú er 91 árs, hefur viðurkennt að hafa verið helsti heimildarmaður bandarísku blaðamannanna Bobs Woodward og Carls Bernstein hjá Washington Post sem áttu einna stærstan þátt í að fletta ofan af Watergate-hneykslinu á fyrri hluta áttunda áratuga síðustu aldar. Skrif þeirra tengdu innbrot í Watergate-bygginguna við Richard Nixon Bandaríkjaforseta en hlerunarbúnaði hafði verið komið fyrir á skrifstofum Demókrataflokksins. Watergate-hneykslið varð til þess að Nixon Bandaríkjaforseti neyddist til að segja af sér embætti árið 1974. Þeir Woodard og Bernstein hétu því að láta ekkert uppi um heimildarmann sinn fyrr en að honum látnum og þann trúnað hafa þeir haldið. Í gær birtist grein í á vefsíðu tímaritsins Vanity Fair þar sem fullyrt var að það væri Mark Felt. Í kjölfarið staðfesti Felt frásögnina við blaða- og fréttamenn sem komu saman á heimili öldungsins. Hann mun hafa brosað út að eyrum þegar hann gekkst við að vera hinn eini sanni Deep Throat. Á sínum tíma var Felt meðal hæstráðenda hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI. Hann gerði sér vonir um að verða yfirmaður en Nixon skipaði Patrick Gray í stöðuna. Samkvæmt Washington Post var það óánægja Felts með afskipti Nixon-stjórnarinnar af rannsókn alríkislögreglunnar á innbrotinu í Watergate-bygginguna sem knúði hann til að leka upplýsingum til blaðamanna Washington Post. Vangaveltur um hver Deep Throat hafi verið hafa verið uppi í þrjátíu ár og verið efni fjölmargra bóka, sjónvarpsþátta, blaðagreina og bíómyndar. Í bók, sem kom út árið 2002, var því haldið fram að Felt hefði verið Deep Throat og það reyndist rétt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×