Erlent

Sjíar gengu berserksgang

Múgæsing greip um sig í Karachi, stærstu borg Pakistans, eftir að sjálfsmorðssprengjuárás var gerð í sjíamosku. 12 manns liggja í valnum. Í fyrrakvöld reyndu þrír vopnaðir menn að komast inn í Madinatul Ilm Imambargah-moskuna í Karachi. Eftir átök þar sem tveir lögreglumenn og einn tilræðismaður biðu bana og annar særðist komst sá þriðji inn og sprengdi hann sprengju sína. Einn moskugestanna dó og á annan tug manna særðist. Mennirnir eru taldir tilheyra hópi öfgasinnaðra súnnía sem beinir spjótum sínum að kristnum og sjíum. Yfirvöld segja hópinn hafa tengsl við al-Kaída. Eftir að árásin spurðist út gengu mörg hundruð æstir sjíar berserksgang, fóru um borgina og kveiktu í bílum og verslunum, þar á meðal útibúi bandarísku kjúklingastaðakeðjunnar KFC. Fjórir brunnu inni á staðnum og tveir til viðbótar köfnuðu eftir að hafa læst inni í kæliskáp þar sem þeir höfðu leitað skjóls. Aðeins eru þrír dagar síðan sjálfsmorðsprengjumaður banaði tuttugu sjíum við helgidóm nærri höfuðborginni Islamabad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×