Erlent

Khodorkovskí í níu ára fangelsi

Dómsuppkvaðningu yfir Mikhaíl Khodorkovskí, fyrrverandi forstjóra og aðaleiganda rússneska olíufyrirtækisins Yukos, var loks lokið í Moskvu í gær, tólf dögum eftir að hún hófst. Var hann dæmdur í níu ára fangelsi. Þar með lauk - í bili - einu umfangsmesta og jafnframt umdeildasta réttarhaldi síðari tíma í Rússlandi, en margir hafa haldið því fram að það sé í raun pólitískt uppgjör Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta við Khodorkovskí, sem á tímabili var auðugasti maður landsins. Gæsluvarðhaldið sem Khodorkovskí hefur verið í síðan hann var handtekinn haustið 2003, alls 583 dagar, dregst frá fangelsisrefsingunni. Khodorkovskí lét sér hvergi bregða er dómsorðið var lesið. Í yfirlýsingu sem einn verjenda hans, Anton Drel, las síðan upp fyrir utan dómsalinn sagði Khodorkovskí að hann hefði ekki viljað gagnrýna dómarann harkalega, vegna þess "þrýstings sem hún hefur verið beitt af upphafsmönnum þessa réttarhalds". "Dómsvaldi hefur verið breytt í beitt vopn stjórnvalda," lýsti hann yfir. Platon Lebedev, fyrrverandi viðskiptafélagi Khodorkovskís sem var ákærður með honum, hlaut einnig dóm fyrir sömu sakir og er gert að sæta sömu refsingu. Þeim Khodorkovskí og Lebedev var ennfremur gert að greiða yfir 17 milljarða rúblna, andvirði um fjögurra milljarða króna, í sektir og vangreidda skatta. Stuðningsmenn Khodorkovskís, þar á meðal skákmeistarinn Garrí Kasparov, halda því fram að allur málatilbúnaðurinn á hendur honum sé hefnd ráðamanna í Kreml fyrir að hann skyldi hafa brotið gegn óskrifuðu samkomulagi um að láta stjórnmál afskiptalaus, en hafði meðal annars veitt stjórnarandstöðuflokkum fjárhagsstuðning. Dómurinn mun halda Khodorkovskí bak við lás og slá vel fram yfir forsetakosningarnar 2008 og jafnvel allt til kosninganna árið 2012. Reiknað er með því að verjendur Khodorkovskís áfrýji dómnum innan þess tíu daga frests sem gefinn er. Saksóknari ítrekaði í gær að verið væri að undirbúa nýjar ákærur á hendur honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×