Erlent

Tvöföld sjálfsmorðssprengjuárás

Allt að þrjátíu manns týndu lífi í sjálfsmorðssprengjuárás í bænum Hillah í Írak í gær. Á meðan handtóku bandarískar hersveitir háttsettan stjórnmálamann úr hópi súnnía í misgripum. Sprengjutilræðið í Hillah í gærmorgun var vandlega skipulagt en þá smeygðu tveir menn með sprengjur innanklæða sér í hóp 500 lögreglumanna sem mótmæltu niðurskurði í þeirra röðum. Til að valda sem mestum skaða kveiktu þeir á vítisvélum sínum með einnar mínútu millibili og þegar yfir lauk lágu allt að þrjátíu manns í valnum. "Ég sá allt í einu risastóran eldhnött og líkamsleifar fljúgandi um allt. Í kjölfarið tóku lögreglumenn að skjóta upp í loftið í örvæntingu sinni," sagði Jiwad Kadhim Hamid, sjónarvottur að harmleiknum. Íraskar og bandarískar öryggissveitir héldu í gær áfram aðgerðum sínum gegn uppreisnarmönnum. Bandarískir hermenn handtóku í misgripum Mahsen Abdul-Hamid, leiðtoga stærsta stjórnmálaflokks súnnía og fyrrverandi forseta íraska ráðgjafarráðsins sem sett var á fót í kjölfar innrásarinnar 2003. Honum var sleppt skömmu síðar. Flokkur hans hafði áður varað við því að í skjóli aðgerðanna yrðu saklausir borgarar áreittir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×