Erlent

Ólga á Gaza-svæðinu

Ísraelsk yfirvöld hafa hótað gagnaðgerðum eftir að herskáir Palestínumenn skutu sprengjum að landnemabyggðum á Gaza-svæðinu annan daginn í röð. Ólgan gaus upp á svæðinu í fyrradag þegar liðsmaður Hamas lét lífið nærri egypsku landamærunum. Palestínumenn hafa sakað ísraelska hermenn um að hafa drepið manninn, en herinn vísar þeim ásökunum á bug. Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, kallaði æðstu yfirmenn heraflans á sinn fund í gær. Hann sagði eftir fundinn að til greina kæmi að Ísraelar tækju aftur að hefna fyrir árásir Palestínumanna. Óttast er að við slíkar aðgerðir muni ofbeldið stigmagnast á ný og vopnahlé síðustu mánaða fari út um þúfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×