Innlent

Ólafur Ragnar í Kína

"Það var auðvitað ekki tilviljun að ég skildi velja Háskólann í Peking til þess að flytja þennan boðskap og til þess að vísa til reynslu okkar á vettvangi lýðræðis og vísa í lýðræðisþróun í Evrópu, þróun mannréttinda og þær hugmyndir sem þessu eru tengdar. Þessi háskóli hefur verið í fararbroddi á sögulegum tímamótum þegar lýðræðisbylgjan var að reyna að brjótast fram í Kína," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti þegar hann var spurður að því hvers vegna hann ákvað að ræða mannréttindamál í ræðu sem hann hélt við við háskólann. "Það kveður við allt annan tón á fundum mínum núna miðað við aðra fundi sem ég hef áður átt við ráðamenn í Kína þegar mannréttindamál ber á góma, það er ekki þessi sama spenna," sagði Ólafur Ragnar. Ólafur Ragnar hélt einnig ræðu á ráðstefnu íslensku viðskiptasendinefndarinnar þar sem hann lagði áherslu á að hlutverk Íslendinga væri að vera hlekkur og hvati í viðskiptum Kínverja við Evrópu og Bandaríkin. FL-Group undirritaði samning við Air China um leigu á fimm Boeing þotum en samningurinn er gerður í framhaldi af kaupum FL-Group á 15 nýjum flugvélum af gerðinni Boeing 737-800 fyrr á þessu ári, sem var stærsti flugvélakaupasamningur í sögu félagsins. Vélarnar verða afhentar í júlí á næsta ári. Fulltrúar kínversku borgarinnar Xianyang, Íslandsbanki og Enex sem er samstarfsfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur um útflutning á hitaveituþekkingu undirrituðu samkomulag um uppbyggingu hitaveitumála í þessari kínversku stórborg. "Það er greinilegt að kínversk stjórnvöld hafa gríðarlegan áhuga á því að nýta jarðvarmann sem er víða í Kína," sagði Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitunnar eftir undirritun samkomulagsins í samtali við Hallgrím. Alfreð bætti svo við: "Það er greinilegt að Kínverjar hafa mikinn áhuga á jarðvarma og vilja hafa samstarf við okkur Íslendinga sem erum kannski mestu sérfræðingar í heimi á þessu sviði"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×