Innlent

Stóri draumurinn og launaþróun

Helgi Seljan skrifar
Fréttaskýring - Helgi Seljan



Bechtel greiðir lægri laun en Impregilo - Mun stóri draumur Austfirðinga snarlækka laun á vinnumarkaði hérlendis?

Þó aðstandendum bandaríska verktakafyrirtækisins Bechtel hér á landi sé samanburður við ítalska kollega sína á Kárahnjúkum mjög á móti skapi kemur Bechtel þó verr út í samaburði ef laun eru borin saman. Verkalýðsmenn ganga jafnvel svo langt að segja bæði þessi fyrirtæki koma til með að lækka laun á íslenskum vinnumarkaði í kjölfarið.

Bechtelmenn hafa einsett sér að greiða laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og ráða til sín milliliðalaust útlendinga, án milligöngu starfsmannaleiga. Þessu fagna forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, enda barátta þeirra við starfsmannaleigur tekið stóran tíma frá því framkvæmdir komust á fullt við Kárahnjúka.

 

Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Lágmarkslaun lík þeim sem Bechtel hyggst greiða starfsmönnum sínum eru enda talsvert mikið lægri en almennt gerist á sambærilegum verktakamarkaði eystra og annars staðar á landinu. Þetta segir framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins að sé meginástæða þess að íslendingar séu ekki fleiri en raun ber vitni - og verði jafnvel færri en áætlanir Bechtel gera ráð fyrir.

Forsvarsmenn ameríska verktakarisans Bechtel hér á landi áætla að um 1600 manns muni vinna að byggingu álvers Fjarðaáls um þetta leyti á næsta ári. Starfsmenn þess eru nú í óðaönn að koma upp vinnubúðum rétt innan þorpsins á Reyðarfirði og samkvæmt upplýsingum frá Bechtel eru nú 300 starfsmenn mættir til vinnu á Reyðarfirði og mun þeim fjölga jafnt og þétt næstu mánuði.

Að sögn Björns Lárussonar, upplýsingafulltrúa Bechtel á Íslandi, eru íslenskir iðnaðar- og verkamenn í kringum 80% af heildarfjölda starfsmanna en afgangurinn, 20%, eru íslendingar. Björn segir að í áætlunum fyrirtækisins sé þó gert ráð fyrir að þetta hlutfall snúist við þegar fullmannað verður á svæðinu. Björn segir að illa hafi gengið að fá íslendinga í vinnu hjá fyrirtækinu, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið auglýst eftir fólki. Pólverjar munu því verða meginþorri þeirra sem byggja munu langþráða álverksmiðju Austfirðinga eins og gert var ráð fyrir, en fjöldi þeirra talsvert meiri en ráð var fyrir gert.

Samráðshópur verkalýðsfélags Reyðarfjarðar, AFLs Starfsgreianfélags, Starfsgreinasambandsins og Bechtel mun hittast reglulega meðan á framkvæmdum stendur. Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, á sæti í samráðshópnum. Hann telur áætlanir Bechtel um fjölda íslenskra starfsmanna hjá fyrirtækinu vera of háar miðað við það kaup sem í boði er, og er talsvert lægra en það sem gengur og gerist í samskonar vinnu þar sem markaðslaun, umtalsvert hærri en svokallaðir strípaðir taxtar eins og Bechtel greiðir, tíðkast.

Í viðtali við Talstöðina sagði Skúli það jafnframt umhugsunarefni fyrir aðila vinnumarkaðarins að þessi tvö risavöxnu verkefni, byggin Kárahnjúkastíflu og álvers Fjarðaáls, verði til þess að lækka þau laun sem hingað til hafa tíðkast á vinnumarkaði hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×