Erlent

Ofdrykkja fer verr með konur

Konur eru mun líklegri til að verða fyrir skaða af völdum áfengis en karlar samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem unnin var í Háskólanum í Heidelberg í Þýskalandi. BBC greinir frá þessu. Í rannsókninni var heili 150 sjálfboðaliða skannaður. Helmingur sjálboðaliðanna var fólk sem átti við ofdrykkju að stríða. Niðurstöður heilaskönnunarinnar leiddu í greinilega ljós heilaskemmdir meðal þeirra sem drukku ótæpilega, meðal annars heilarýrnun. Heili kvenna sem drukku of mikið rýrnaði jafn mikið og hjá körlum, en á mun skemmri tíma. Karl Mann, sem stýrði rannsókninni, segir þetta benda til þess að þó að karlar drekki að jafnaði meira áfengi en konur, verði þær frekar háðari því og viðkvæmari fyrir skaðlegum áhrifum þess. Því sé mikilvægt að greina og meðhöndla alkóhólisma í konum sem allra fyrst. "Konur byrja yfirleitt að drekka síðar á ævinni en en karlmenn og neyta að jafnaði áfengis í minna mæli," segir Mann. "Því hefði maður búist við að áfengi hefði minni áhrif á þær en karla, en þetta sýnir að konur sem þjást af ofdrykkju eru líklegri til að hljóta skaða af en karlar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×