Innlent

Spæna í gegnum mosagrónar hlíðar

Miklar gróðurskemmdir hafa verið unnar á Reykjanesi með akstri utan vega, að sögn Jónatans Garðarssonar, sem er varamaður í umhverfisnefnd Reykjaness og mikill útivistarmaður. Hann segir að það taki óratíma fyrir náttúruna að afmá þau sár sem þar séu nú. "Á sumardaginn fyrsta voru sex eða sjö ungir menn á torfæruhjólum að leik við Djúpavatnsveg á Reykjanesi," sagði Jónatan. "Sá vegur er að jafnaði lokaður á veturna og ekki opnaður fyrr en líða tekur aðeins á sumarið. Djúpavatnsvegur liggur meðfram norðanverðum Sveifluhálsi, frá Krýsuvíkurvegi við Vatnsskarð í áttina að Djúpavatni og síðan áfram um Vigdísarvelli og kemur niður á Ísólfsskálaveg á sunnanverðu Reykjanesi nærri Latsfjalli." Jónatan sagði að torfæruhjólamenn hefðu greinilega eignað sér þetta svæði án nokkurra leyfa frá fólkvangsnefndinni, sýslumanni eða öðrum sem hefðu lögsögu á Reykjanesi. "Hvor sínu megin við veginn hafa þeir útbúið keyrslubraut þar sem spólað er og spænt linnulaust alla helgidaga, sérstaklega á vorin. Þessi braut virðist ekki nægja því einhverjir hafa tekið upp á því að aka upp í hlíðar Sveifluhálsins," sagði Jónatan. "Þeir sem komast alla leið upp halda síðan áfram eftir hálsinum ýmist í norðaustur út í Vatnsskarð á Krýsuvíkurvegi eða suðvestur eftir hálsinum í áttina að Miðdegishnúki. Við Djúpavatnsveg er hrauntröð sem nefnist Sandfellsklofi og þykir merkilegt náttúrufyrirbæri. Foksandur hefur fyllt um 900 metra af hraunrásinni og þótti lengi falleg yfirferðar. Nú er vægast sagt ömurlegt að sjá hvernig henni hefur verið misþyrmt. Það er greinilegt að brautin er ekki nógu spennandi því sumir torfærumenn láta hafa sig í að aka eftir Sandfellsklofagjánni. Þeir hafa sporað þar allt út með hjólum sínum. Til að komast aftur upp úr gjánni þegar komið er að endilokum foksandsins þurfa þeir að spæna í gegnum mosagróna hlíð og sárið þar er greinilega fremur nýtt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×