Erlent

Vilja hindra vitnisburð

Bandarískur alríkisdómari samþykkti í gær kröfu lögmanna Sameinuðu þjóðanna um tímabundið bann við því að maður sem átti þátt í að rannsaka svonefnda olíu-fyrir-mat-áætlun samtakanna mætti leggja fram trúnaðargögn úr rannsókninni fyrir bandarískar þingnefndir. Málið snýst um Robert Parton, fyrrverandi FBI-mann sem sat í rannsóknarnefnd á vegum SÞ sem vann að úttekt á áætluninni en hætti þátttöku í henni, að sögn vegna þess að hann taldi að aðrir nefndarmenn kusu að líta framhjá vísbendingum sem væru íþyngjandi fyrir Kofi Annan, framkvæmdastjóra SÞ. Lögmenn SÞ vildu hindra að Parton yrði heimilað að afhenda rannsóknarnefndum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings trúnaðarskjöl sem hann tók með sér þegar hann hætti þátttöku í rannsókninni. Sonur Kofi Annans, Kojo, var viðriðinn stjórn áætlunarinnar fyrir hönd SÞ en hann vann jafnframt fyrir svissneskt fyrirtæki sem fékk úthlutað stóru verkefni í tengslum við hana. Í formlegri niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar er Annan eldri ekki sakaður um alvarlega yfirsjón þótt hann hafi verið gagnrýndur fyrir að taka ekki fyrr í taumana en raunin varð, eftir að vísbendingar komu fram um misbresti í stjórnun áætlunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×